News

19.08.2019

Ársskýrsla kærunefndar útlendingamála vegna ársins 2018 er komin út. Þar má finna ýmsan fróðleik um starfsemi nefndarinnar, tölfræði og rekstur hennar. Skýrsluna má finna hér.

 

Arsskyrsla2017forsida 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ársskýrsla kærunefndar útlendingamála 2017

 

14.07.2018

Arsskyrsla2017forsida

Ársskýrsla kærunefndar útlendingamála vegna ársins 2017 kom út nýlega. Í henni má finna umfjöllun um þau mál sem nefndin hefur haft til umfjöllunar á árinu og tölfræðiupplýsingar sem m.a. sýna styttingu málsmeðferðartíma vel niður fyrir markmið stjórnvalda. Þá má einnig finna í skýrslunni umfjöllum um það sem helst setti mark sitt á starf nefndarinnar á árinu. Skýrsluna má finna hér.

 

 

 

 

 

 

 

Ársskýrsla kærunefndar útlendingamála 2016 

Arskyrsla2016forsida 

10.07.2017

Ársskýrsla kærunefndar útlendingamála vegna ársins 2016 er komin út. Í henni er fjallað um þann árangur sem náðist á árinu við að stytta málsmeðferðartíma umsækjenda um alþjóðlega vernd á sama tíma og veruleg fjölgun varð á málum sem nefndin hafði til meðferðar. Verulegar breytingar urðu á skipulagi nefndarinnar á árinu. Nefndarmönnum var fjölgað úr þremur í 7 og starfsfólki fjölgað úr 9 í 19. Þá tóku ný lög um útlendinga gildi á árinu sem breytti nokkuð því lagaumhverfi sem nefndin starfar í. Skýrsluna má finna hér.

 

 

 

 

Málsmeðferðartími kærunefndar útlendingamála styttist enn

 

19.01.2017

Af tölum sem kærunefnd útlendingamála hefur tekið saman eftir annað starfsár nefndarinnar má sjá að málsmeðferðartími hefur haldið áfram að styttast. Blikur eru þó á lofti um framhaldið vegna takmarkaðra fjárheimilda nefndarinnar fyrir árið 2017.
Meðalmálsmeðferðartími hælismála síðustu þrjá mánuði ársins var 84 dagar sem er undir 90 daga málsmeðferðarmarkmiðum stjórnvalda. Mál sem hlotið hafa flýtimeðferð þar sem umsækjendur komu frá öruggum ríkjum voru afgreidd á 8,8 dögum að meðaltali. Til samanburðar var meðalmálsmeðferðartími hælismála 237 dagar árið 2015 sem var ennfremur veruleg stytting frá árinu 2014.

 

Malsmedferdartimi

Nefndin lítur svo á að stuttur málsmeðferðartími sé einn af hornsteinum mannúðlegrar málsmeðferðar umsókna um alþjóðlega vernd enda getur löng bið eftir niðurstöðu haft neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu umsækjenda. Málsmeðferðin verður þó að tryggja að mál fái einstaklingsbundna skoðun til að réttaröryggi þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi sé tryggt.


Af tölum um starf nefndarinnar má einnig sjá verulega aukningu í fjölda innkominna mála sem og á afköstum nefndarinnar en nefndin afgreiddi tæplega fjórum sinnum fleiri hælismál á árinu 2016 en hún gerði árið á undan, eða 450 mál á móti 122 málum árið 2015.

 

Afgreidd

Á árinu fjölgaði nefndarmönnum úr þremur í sjö og varaformaður var skipaður í fullt starf við nefndina. Starfmönnum nefndarinnar var einnig fjölgað verulega á seinni hluta síðasta árs. Á grundvelli lagabreytinga á árinu voru verkferlar einfaldaðir og straumlínulagaðir. Þessir þættir voru á meðal forsendna þess að nefndinni tókst að stytta málsmeðferðartíma á árinu þrátt fyrir fordæmalausa fjölgun mála, sérstaklega á haustdögum.

 

Staðfestingarhlutfall úrskurða kærunefndarinnar í Dyflinnarmálum hækkaði úr 73% í 82% á milli ára en í öðrum hælismálum fór þetta hlutfall úr 63% í 80%. Með staðfestingarhlutfalli er átt það hlutfall af úrskurðum kærunefndar þar sem ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar að öllu leyti. 

 


 

 

 

 

 

Tölfræði kærunefndar útlendingamála 1. júlí 2016

Veruleg stytting málsmeðferðartíma

Kærunefnd útlendingamála hóf störf snemma árs 2015 og er nú á öðru starfsári sínu. Tölur sem teknar hafa verið saman eftir fyrri hluta ársins 2016 sýna vel árangurinn frá upphafi. Eitt af brýnustu verkum nefndarinnar var að stytta málsmeðferðartíma hælismála en óumdeilt er að löng bið hælisleitenda eftir niðurstöðu í sínum málum getur haft slæm áhrif á andlega heilsu þeirra og skapað mikið óöryggi fyrir þá og fjölskyldur þeirra. Eins og sjá má á súluritinu hér að neðan hefur kærunefndin náð að stytta málsmeðferðartíma kæruferilsins verulega, bæði í venjulegum hælismálum og Dyflinnarmálum. Málsmeðferð í Dyflinnarmálum hefur styst úr 483 dögum að meðaltali á 2. ársfjórðungi 2015 í 87 daga á sama tímabili á þessu ári, eða um 82%. Á sama tíma hefur málsmeðferð í öðrum hælismálum styst um 56%.

Súlurit 1: Meðal málsmeðferðartími í dögum

malsmeferdartimijuly2016

 

 

Staðfestingarhlutfall hefur hækkað

Kærunefnd útlendingamála endurskoðar ákvarðanir Útlendingastofnunar sem kærðar eru til nefndarinnar. Nefndin getur staðfest ákvörðun stofnunarinnar, breytt henni eða sent málið til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. Ástæður þess að nefndin kann að ákveða að staðfesta ekki ákvörðun stofnunarinnar geta verið margvíslegar. Ný gögn geta hafa komið fram sem breyta forsendum ákvörðunar Útlendingastofnunar og atvik kunna hafa breyst á þeim tíma sem beðið er niðurstöðu kærunefndar. Þá getur kærunefnd túlkað lög, alþjóðasamninga og gögn málsins á annan hátt en Útlendingastofnun. Á neðangreindu súluriti má sjá að staðfestingarhlutfallið hefur hækkað nokkuð en það er eðlileg þróun af ýmsum ástæðum. Helst má nefna að tíminn sem líður á milli úrskurðar kærunefndar og ákvörðunar Útlendingastofnunar er styttri og minni líkur á að aðstæður hælisleitenda hafi breyst. Þá er orðið meira samræmi á milli túlkunar Útlendingastofnunar og kærunefndar á þeim lögum sem um þessi mál gilda og á þeim sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar.

Súlurit 2: Staðfestingarhlutfall

Stadfestingarhlutfalljuli2016 

 

 

Þreföldun á innkomnum málum

Fjöldi kærumála sem borist hefur nefndinni hefur breyst verulega á milli ára. Á fyrri hluta ársins 2015 bárust nefndinni 62 kærur á hælisúrskurðum Útlendingastofnunar, þ.m.t. Dyflinnarmál. Á sama tímabili á þessu ári bárust nefndinni 197 hælismál sem er meira en þreföldun á málafjölda. Að meðtöldum dvalarleyfismálum og öðrum kærum bárust nefndinni 304 mál á fyrri hluta ársins 2016 á meðan 99 mál bárust á sama tíma í fyrra.

Súlurit 3: Innkomin mál

Innkominmaljuli2016 


 

Veruleg fjölgun hælisúrskurða

Fjöldi úrskurða í hælismálum hefur einnig aukist verulega en á fyrri hluta ársins 2015 kvað nefndin upp 29 úrskurði í hælismálum. Þó ber að hafa í huga að nefndin hóf ekki úrskurðarvinnu sína af fullum þunga fyrr en í mars 2015. Á fyrri helmingi þessa árs hefur nefndin kveðið upp 148 úrskurði í hælismálum sem eru um 55% fleiri úrskurðir í hælismálum en allt árið í fyrra.

Súlurit 4: Fjöldi úrskurða í hælismálum

Fjoldiurskurdajuly2016

 

 

Fyrirsjáanlegar breytingar

Kærunefndin er um þessar mundir að undirbúa flutning í nýtt húsnæði. Starfsfólki og nefndarmönnum er að fjölga og varaformaður hefur nú verið ráðinn í fullt starf. Þá hefur nýleg breyting á útlendingalögunum einfaldað málsmeðferðina nokkuð. Allt þetta mun leiða til aukinnar skilvirkni og hraðari málsmeðferðar. Þrátt fyrir aukinn hraða og einfaldari málsmeðferð í sumum tegundum mála munu einstaklingsbundnar aðstæður hælisleitenda þó alltaf fá nákvæma skoðun til að tryggt sé að réttindi þeirra samkvæmt íslenskum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur tekið á sig séu virt.

 

 

 

 

 

 

 

Ársskýrsla kærunefndar útlendingamála 2015

Arsskyrslafrontpage

 

 

15.06.2016

Fyrsta ársskýrsla kærunefndar útlendingamála er komin út. Hún lýsir þeim verkefnum sem nefndin tókst á við á stofnári sínu, þróun málafjölda, málshraða og fleira.

Framundan eru miklar breytingar hjá nefndinni. Nýr varaformaður sem gegna mun fullu starfi verður skipaður á næstunni, nefndarmönnum mun fjölga úr þremur í sjö og nefndin mun flytja í stærra húsnæði. Þá mun starfsmönnum fjölga verulega til að takast á við þá miklu aukningu sem orðið hefur á umsóknum um alþjóðlega vernd.

Breytingar á útlendingalögum sem tóku gildi í lok maí mun breyta verkferlum nokkuð hjá nefndinni og hafa í för með sér aukna skilvirkni og betri nýtingu á fjármunum. Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

 

 

 

 

Verulegur árangur náðst við að stytta málsmeðferðartíma hælismála

12.02.2016

Eftir fyrsta starfsár kærunefndar útlendingamála er ljóst að verulegur árangur hefur náðst við styttingu málsmeðferðartíma. Nefndin er mjög meðvituð um að löng málsmeðferð og bið eftir niðurstöðu reynist hælisleitendum jafnan erfið. Ef niðurstaða er neikvæð og hælisleitendur þurfa að fara af landi brott geta tengsl sem fólk hefur myndað oft gert viðskilnað erfiðan, sérstaklega ef um er að ræða barnafjölskyldur. 

Málsmeðferðartími hjá kærunefnd útlendingamála á árinu 2015 litaðist mjög af eldri málum sem nefndin fékk á sitt borð við stofnun nefndarinnar. Við lok 2015 hafði nefndinni þó tekist að ljúka öllum eldri málum frá 2014 og fyrr, en um síðustu áramót voru um 90% af málum í vinnslu yngri en sex mánaða. Meðalaldur allra mála í vinnslu 1. janúar sl. var 106 dagar en var 294 dagar ári áður. Þá hafði fjöldi mála í vinnslu einnig lækkað verulega frá því að nefndin hóf að úrskurða þrátt fyrir metfjölgun hælisleitenda og kærumála á haustmánuðum 2015.

Taflan hér að neðan sýnir vel þann árangur sem náðst hefur á fyrsta starfsári kærunefndarinnar.   

 

  Meðalaldur mála í vinnslu
Tegund mála 1. jan. 2015 1. jan. 2016
Hælismál 220 dagar 108 dagar
Dyflinnarmál 268 dagar 70 dagar
Dvalarleyfi 255 dagar 119 dagar
Vegabréfsáritanir 366 dagar 0 dagar (engin mál í bið)
Málsmeðferðarkærur 355 dagar 0 dagar (engin mál í bið)
Öll mál 294 dagar 106 dagar

 

Meðalaldur mála hefur enn haldið áfram að lækka og var 86 dagar 1. febrúar sl. Talsverð óvissa ríkir þó um framhaldið. Fyrstu tölur um fjölda mála benda til mun meiri fjölgunar milli ára en innanríkisráðuneytið gerði ráð fyrir í forsendum fjárlaga fyrir 2016. Í janúar fékk nefndin t.d um þrefalt fleiri hælismál til sín en mánaðarmeðaltal síðasta árs, en sú fjölgun er í samræmi við spár Útlendingastofnunar um aukin fjölda hælismála á þessu ári. 

 

 

 

Vefur kærunefndar útlendingamála

8.01.2016

Vefur kærunefndar útlendingamála fór í loftið 8. janúar sl. Á vefnum eru upplýsingar fyrir kærendur, lögmenn þeirra og aðra sem láta sig þessi mál varða.  

Á vefnum má finna upplýsingar um meðferð kæru, rétt til að koma fyrir nefndina, málsmeðferðartíma, forgangsröðun mála o.fl. Úrskurðir kærunefndar útlendingamála eru birtir á www.urskurdir.is.  

Á vefnum verður tölfræði kærunefndarinnar einnig birt, sem og árskýrsla nefndarinnar. 

 

staðsetning

Kærunefnd útlendingamála

Skúlagötu 17

101 Reykjavík 

Opnunartími

Mánudaga - Föstudaga

    09:00 - 12:00

    13:00 - 16:00

 

Upplýsingar

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Sími: 510 0510