Fær málið mitt forgang?
Kærumál eru almennt afgreidd í þeirri röð sem þau berast innan hvers flokks.
Forgangsröðun vegna aðstöðu kæranda
Málum er varða umsóknir um alþjóðlega vernd getur verið gefinn forgangur ef um er að ræða sérstaklega viðkvæma einstaklinga, svo sem fylgdarlaus börn, fólk með fötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæða foreldrar með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir pyndingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.
Ákvörðun um forgangsröðun mála er tekin eins fljótt og kostur er eftir að kæra hefur verið móttekin. Flestir umsækjendur um alþjóðlega vernd eru í erfiðri stöðu. Ákvörðun um forgang eins máls þýðir að jafnaði að önnur mál tefjast. Málum er því aðeins forgangsraðað af þessum sökum í undantekningartilvikum.
Bersýnilega tilhæfulausar umsóknir
Ef Útlendingastofnun hefur metið umsókn um alþjóðlega vernd sem bersýnilega tilhæfulausa og umsækjandi er ríkisborgari ríkis sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg heimaríki þá mun kærunefndin almennt forgangsraða því máli. Aðstæður kæranda eru þó alltaf skoðaðar á einstaklingsgrundvelli til að meta hvort þær skapi rétt til alþjóðlegrar verndar eða dvalarleyfis.
Mál afgreidd saman vegna hagkvæmnissjónarmiða
Öðru hvoru berast nefndinni mál sem hafa margt sameiginlegt, svo sem það að umsækjendur um alþjóðlega vernd eru frá sama landi, eða að sömu lagasjónarmið eiga við um úrlausn margra kærumála. Slík mál eru afgreidd saman til hagræðis, þegar unnt er. Þetta getur þýtt að sum þessara mála eru afgreidd á styttri tíma en annars.
Þó að mál geti haft sameiginleg einkenni þá er hvert mál ávallt skoðað sérstaklega og einstaklingsbundnar aðstæður hvers kærenda fá alltaf fulla skoðun.