Fréttatilkynning vegna málsmeðferðartíma kærunefndar útlendingamála

Sökum mikillar fjölgunar kærumála undanfarna mánuði hefur áætlaður málsmeðferðartími lengst talsvert í flestum tegundum kærumála, þar á meðal í málum er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Allt kapp er lagt á að stytta málsmeðferð til samræmis við markmið laga um útlendinga.

Samkvæmt breytingum á reglugerð um útlendinga sem tóku gildi 25. júní 2024 skulu stjórnvöld leitast við að forgangsraða meðferð umsókna með tilliti til lögbundinna tímafresta 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þannig að mál sem eru nálægt því að uppfylla tímamörk ákvæðisins njóti forgangs. Þetta þýðir að málsmeðferð þeirra umsókna sem þegar hafa uppfyllt 16 og/eða 18 mánaða tímafrest 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, án þess að endanleg niðurstaða liggi fyrir, getur lengst töluvert enda ber að forgangsraða vinnslu umsókna sem ekki hafa uppfyllt framangreint tímamark.

Ef fyrirsjáanlegt er að meðferð máls dragist verulega tilkynnir kærunefnd umsækjanda um töfina, útskýrir ástæður hennar og gefur kæranda upplýsingar um hvenær niðurstöðu sé að vænta. Frá janúar 2025 hefur aukin áhersla verið lögð á afgreiðslu mála sem þegar hafa uppfyllt tímamörk 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga hjá kærunefnd. Unnið er að því að ljúka þeim málum samhliða afgreiðslu annarra mála sem ekki hafa uppfyllt tímamörk ákvæðisins. Verða fyrrgreind mál unnin í þeirri röð sem þau bárust kærunefnd. Stefnt er að því að öllum kærumálum sem bárust nefndinni árið 2023 verði lokið eigi síðar en 1. maí 2025.

Þá hefur umboðsmaður Alþingis fjallað um tafir á afgreiðslu mála, sbr. https://www.umbodsmadur.is/alit-og-bref/mal/nr/10595/skoda/mal/.