Hvernig get ég kært

Ákvarðanir Útlendingastofnunar samkvæmt útlendingalögum (alþjóðleg vernd, dvalarleyfi, búsetuleyfi, vegabréfsáritanir, brottvísun, og frávísun) eru kæranlegar til kærunefndar útlendingamála. Útlendingastofnun veitir leiðbeiningar í ákvörðun sinni um hvernig kæra má ákvörðunina. Kærufrestur er almennt 15 dagar frá birtingu ákvörðunarinnar. Ef um er að ræða umsókn um alþjóðlega vernd og kærandi kemur frá öruggu upprunaríki þá er kærufrestur fimm dagar.

Ef kæra er send í tölvupósti staðfestir kærunefndin móttöku póstsins.

Kærunefnd útlendingamála gerir ekki kröfur um ákveðið form kæru. Nauðsynlegt er þó að nafn og heimilisfang kæranda komi fram í kæru, sem og tölvupóstur og/eða sími, svo hægt sé að hafa samband við kæranda á meðan kærumálið er til meðferðar hjá nefndinni.

Kærunefndin gerir ekki kröfu um að kærendur njóti aðstoðar talsmanns en þar sem kærumál geta verið flókin er mælt með að kærendur fái ráðgjöf frá löglærðum aðila, a.m.k. á fyrstu stigum málsins.

 

Almennar leiðbeiningar til kærenda og talsmanna þeirra

  1. Kæra

Senda má kæru til kærunefndar útlendingamála á postur@knu.is eða í gegnum Signet transfer, ekki er þörf á að senda hana einnig bréfleiðis. Þá er einnig að finna kæruform á heimasíðu nefndarinnar www.knu.is

Í kæru þarf að koma fram:

  1. Fullt nafn kæranda
  2. Fæðingardagur
  3. Ríkisfang og eftir atvikum viðtökuríki
  4. Ef verið er að kæra fyrir fjölskyldu er gott að taka fram fjölskyldumynstur t.d. að á eftir fullu nafni komi fram innan sviga hvort um sé að ræða föður, móður eða barn. Í þessum tilfellum er nóg að senda einn tölvupóst um kæru að því gefnu að nöfn allra kæranda komi fram.
  5. Hvers konar ákvörðun verið er að kæra, s.s.;
    • synjun á að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar sbr. a-lið (status) eða c-lið (Dyflin) 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og hvert viðtökuríkið er,
    • synjun á umsókn um alþjóðlega vernd,
    • synjun á umsókn um dvalarleyfi,
    • synjun á umsókn um vegabréfsáritun eða
    • ákvörðun um brottvísun.

Með kæru þarf að fylgja umboð eða skipunarbréf talsmanns

Kærunefnd aflar allra gagna málsins frá Útlendingastofnun og því er óþarfi að senda þau gögn með kæru eða greinargerð til kærunefndar. Vilji kærandi byggja mál sitt á sérstöku gagni eða leggja fram frekari gögn er hægt að senda kærunefnd þau gögn með tölvupósti eða í gegnum Signet transfer.

  1. Greinargerðarfrestur

Þegar kæra hefur borist kærunefnd er veittur frestur til skila á greinargerð. Í verklagsreglum sem nálgast má á heimasíðu nefndarinnar hér er að finna upplýsingar um þá fresti.

  1. Greinargerð

Æskilegt er að í greinargerð séu aðalatriði máls dregin fram og rökstuðningur settur fram fyrir helstu málsástæðum kæranda. Greinargerð má senda kærunefnd á netfangið postur@knu.is eða í gegnum Signet transfer, óþarfi er að senda þær einnig bréfleiðis.

Sé ætlunin að leggja fram gögn með greinargerð má einnig senda þau á sama hátt, sé um frumgögn að ræða má koma með þau í afgreiðslu kærunefndar á 1. hæð að Skúlagötu 17.

  1. Frestun réttaráhrifa

Í málum þar sem tekin hefur verið endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur yfirgefi landið er hægt að óska eftir frestun réttaráhrifa til þess að bera mál undir dómstóla. Slík beiðni þarf að berast kærunefnd innan 7 daga frá birtingu úrskurðar. Ákvörðun um frestun réttaráhrifa er tekin af formanni eða varaformanni á grundvelli laganna. Mælst er til þess að blanda ekki saman beiðni um frestun réttaráhrifa og endurupptöku þar sem um töluvert ólík mál er að ræða. Ekki er heimilt að framkvæma ákvörðun/flutning á meðan beiðni um frestun réttaráhrifa er til meðferðar.

  1. Endurupptökur

Beiðni um endurupptöku er hægt að leggja fram hvenær sem er en rétt er að vekja athygli á því að beiðni um endurupptöku frestar ekki réttaráhrifum. Ekki er veittur greinargerðarfrestur og því mikilvægt að bæði rökstuðningur og þau gögn sem liggja eiga til grundvallar berist með beiðninni. Beiðnir um endurupptökur eru afgreiddar á fundi nefndar.

  1. Birtingar

Með breytingarreglugerð nr. 841/2022, sem birt var í stjórnartíðundum hinn 13. júlí 2022, var nýjum málslið bætt við 4. mgr. 44. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Felur breytingin í sér að þegar útlendingur nýtur aðstoðar löglærðs talsmann er Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála heimilt að birta ákvörðun sem tekin er á grundvelli laga um útlendinga með rafrænum hætti. Kærunefnd sendir því talsmönnum alla úrskurði sína með Signet transfer.

  1. Úrskurðir kærunefndar

Fyrri úrskurðir kærunefndar eru aðgengilegir á úrskurðarvef stjórnarráðsins www.urskurdir.is